Færsluflokkur: Bloggar

Ef Icesave fellur þurfum við ekki að borga

Umræðan þessa dagana um Icesave minnir mig á andrúmsloftið í þjóðfélaginu "2007" það sem hamrað var á góðærinu og hvað við værum klár, rík og í gangi væri fjármálaundur veraldarinnar í höndum íslenskra útrásarvíkinga. Allir fylgdu straumnum og varð að múgsefjun sem við súpum nú seyðið af. Skilaboðin nú sem koma í reynd frá Sjálfstæðismönnum og bessevisserunum í gegnum fjölmiðla og Facebook eru "Steingrímur J. er landráðamaður, ríkisstjórnin hefur samið af sér í Icesave, Ísland á sér ekki viðreisnar von ef við samþykkjum, förum aðra leið, 40 þúsund eru á móti Icesave á Facebook, ef þú þingmaður samþykkir þá...". 

Ég veit ekki betur en að allir stjórnmálaflokkar séu sammála um að við verðum að borga Icesave en ágreiningur er um hliðarákvæði í samningnum.

Augljóslega sér stjórnarandstaðan nú tækifæri til að fella ríkisstjórnina með hjálp einhverra þingmanna vinstri grænna. Ekki veit ég hvort það tekst með því að fella Icesave, en ég hef a.m.k. heyrt Steingrím J. segja að ríkisstjórnin muni lifa þetta af. 

Þrátt fyrir þetta allt hefur andstæðingum Icesave að fá stóran hluta þjóðarinnar til að trúa því að það sé hægt að fella Icesave og það með spara þjóðinni að borga stóra reikninginn.

 


Sjálfstæðismenn gerðu þjóðina ábyrga fyrir Icesave

Dæmigert fyrir þingmann Sjálfstæðisflokksins að þylja upp hvað samþykkt Icesave kynni að kosta okkur og vilja meiri tíma. Benda á að farist hafi fyrir að fá álit þessarra og hinna (væntanlega stofnanna sem eru stútfullar af rétttrúuðum) og að stjórnvöld séu vanhæf til að leysa þetta mál. Ég held að þetta geti allt verið rétt og satt hjá Ólöfu en eitt vantar hjá henni og það er hver ber ábyrgðina á þessu og öllu því siðleysi, röngu álitum, álitum sem aldrei var beðið um, einkavæðingu bankanna, þáttöku í blekkingarleiknum um hina stórkostlegu viðskiptajörfa og snillinga sem stjórnuðu fjármálalífi landsins undanfarin ár og fleira slæmt og vont. Ólöf Norðdal, hverjir vildu einkavæðinguna, mærðu fjármálamógúlana og hverjir brugðust okkur almenningi? Vinstri grænir og Steingrímur J? Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin? 

Jú Samfylkingin var í ríkisstjórn 18 mánuði af 18 árunum sem það tók að búa til samfélag hér á Íslandi sem var rétt mótað til að annað eins geti gert. Og þar var Sjálfstæðisflokkurinn öðrum fremur sem stýrði þessu. Sá flokkur sem stjórnaði því að samfélagið yrði svona, þ.e. að óheftur einkarekstur og frjálshyggja að heimslulegustu og óprúttnustu gerð lék lausum hala. Sjálfstæðisflokkurinn tryggði líka réttu fólki úr sínum röðum lykilembætti s.s. seðlabankastjórastöðu, forsvar í fjármálaeftirlitinu, ráðuneytisstjórastörf, útvarpsstjórastarf og mörg, mörg fleiri lykilembætti.

Ég hef bara heyrt um einn útrásarvíking sem ekki er í sjálfstæðisflokknum, Ólaf Ólafsson sem framsókn er látin bera ábyrgð á. Ég hygg að allir hinir séu flokksbundnir og/eða tengdir og mægðir Sjálfstæðisflokknum!

Eiginlega finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn og sjálfstæðismenn á Íslandi eigi að borga Icesave því þeir bera ábyrgðina á því að leyfa Icesave og mærðu snilld Landsbankamanna þegar þeir fóru af stað með þetta fjárhættuspil sem þjóðin ber ábyrgðina á nú.

Sjáflstæðismenn voru að auki búnir að semja um Icesave að mestu leyti, Svavar og félagar löguðu þó aðeins þann samning.

Ólöf, þið komist vonandi ekki í ríkisstjórn þó að Icesave verði fellt. Ég get ekki ímyndað mér að Samfylkingin eða VG láti sér þetta í hug að fara í slíkan sjálfsmorðsleiðangur. Og þjóðstjórn með ykkur innanborðs var ekki það sem almenningur kaus í vetur ekki satt?

Af hverju hefur ekkert heyrst af því hvað Sjálfstæðismenn vilja að tekið verði til bragðs ef og þegar Alþingi fellir Icesave? 

Af hverju hafa Sjálfstæðismenn hvorki beðið um sérfræðiálit hvað gerist ef stefna Sjálfstæðisflokksins og lista Sjálfstæðisflokksins verður ofaná? 


Enn á ný segja fjölmiðlar að ekki sé meirihluti....

Hvort sem það er veruleiki eða óskhyggja eða eitthvað annað keppast fjölmiðlar nú við að telja þjóðinni trú um að ekki sé þingmeirihluti fyrir Icesave. Sömu orð, sömu fréttamenn og fjölmiðlar sögðu þetta líka um aðildarumsókn í ESB. Fimm þingmenn VG, stjórnarandstaðan öll og jafnvel þingmenn Samfylkingarinnar eru á móti samningnum er fullyrt nú. Flestir lögfræðingar landsins líka og svo hinn stórmerki og alvitri Jón Steinarsson í London School of economics!

Hvað skyldi vera til í þessu?

Hvers vegna er talað svona um núverandi ríkisstjórn en ekki þá sem var í haust?

Hvers vegna er umfjöllunarefnið og sjónarhorn fréttamannanna svo þröngt og/eða þeir enn svo auðtrúa að gapa þetta upp eftir spunadoktorum og þingmönnum flokkanna sem mesta ábyrgð vera á hruninu og Icesave? 

Þingmenn sem eru beittir ofbeldi, þeim nauðgað og "þetta er ógeðslegt" umræðan heldur áfram í fjölmiðlum án athugasemda eða gagnrýninna spurninga fjölmiðlafólksins.

Til hvers eru svona fjölmiðlar? 

 

 


Setjum okkar í annarra spor

Gott og vel, allt er þetta rétt og gott sem Ögmundur og svo margir segja og vilja með Icesave. En hver er hin hliðin, sú sem snýr að viðsemjendunum þ.e. breskum og hollenskum sjórnvöldum. Hvernig ætlum við að semja um icesave ef við ekki gerum okkur grein fyrir við hverja, um hvað og í hvernig aðstæðum við erum að semja?

Íslendingar og aðrir eru skuldbundnir til að tryggja innistæður erlendra aðila í íslenskum bönkum skv. EES samninginum, það eru allir vitibornir sammála um.

Þrátt fyrir viðvaranir og áhyggjur stjórnvalda þessarra landa um icesavereikningana, komst Landsbankinn upp með að halda þessari starfsemi í íslenska hluta bankans. Augljóst má telja að það gerðu þeir vegna þess að þá var innistæðutryggingin fyrir hendi og þar með ábyrgð ríkissins á starfseminni. Þetta gerði icesave að betri bisniss fyrir bankann. Íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir lögðu ekki mikið á sig til að fá icesave flutt í breskt eða hollenskt fyrirtæki. Af þessi mætti ætla að fyrir bankahrun vildu Íslendingar hafa icesave í þessu formi.

Þó að ábyrgðarlausir og vankunnandi menn hafi komið Íslendingum í þessa stöðu, eru það stjórnvöld sem bera ábyrgð á því að þeir komust upp með þetta og að hugsanlegar eignir þeirra hafa ekki verið kyrrsettar. Á meðan svo er, er ekki hægt að láta þá sem gerður þetta, borga brúsann EES samningurinn sér svo um. Að auki eru gagnkvæmir samningar af þessu tali nauðsynlegir til að alþjóðleg viðskipti séu sæmilega trygg og samskipti þjóða að þessu leyti möguleg.

Það hlýtur að vera þjóðarhagur allstaðar að ekki sé hægt að stofna til yfirboða á innlánum í öðrum löndum. Hugsum okkur t.d. að hvaða banki sem er og f´r ahvaða landi sem er gæti stofnað til slíkrar starfsemi á Íslandi, auglýst að innlánin séu með ríkisábyrgð og flutt síðan peningana annað og notað þá þar. Myndum við leyfa það? Vildum við ekki að stjórnvöld viðkomandi lands bæru ábyrgð á því að óvandaðir menn þarlendir, kæmust ekki upp með slíkt?

Bretar og Hollendingar eiga langa hefð í alþjóðlegum bankaviðskiptum, þeir gera sér ágætlega grein fyrir hverjir eru í góðum málum og hverjir eru á hálum ís í þessum efnum. Þeir vöruðu við og buðust til að gera icesave innlent í þessum löndum. Íslendingar vildu það ekki. Því skyldu þeir ekki nota samningsstöðu sína nú?

Hvað myndum við gera í sporum þessarra ríkja til að verja innlenda aðila sem annars tapa sínu? Myndum við gefa Bretum og Hollendingum þetta eftir? Myndum við styðja það að mikilsverð atriði eins og innistæðutryggingarákvæðið í EES stæði ekki óhaggað? Myndum við ekki tala í gegnum alþjóðlegar stofnanir sem viðsemjendur okkar þurfa á að halda í neyð? Hvernig var með NATO og þroskastríðið, reyndum við ekki að nota okkar aðstöðu þar?

Nei kæra fólk, samningsstaða okkar er afleit og við verðum líklega að sæta þeim slæmu kostum sem bjóðast í Iceasavesamningum vonda. 


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnar Arnals og Þorsteinn Pálsson, almennilegar rökræður

Viðtal Sigmars við þá Ragnar Arnalds og Þorstein Pálsson í Kastljósinu var mikil tilbreyting frá orðhengils- og skítkastlegu stjórnmálaumræðu sem tröllríður þjóðfélaginu. Rökræður þessarra heiðursmanna sem hafa andstæðar skoðanir á ESB voru kjarnyrtar, engum rökum sleppt, þeir deildu og upplýstu um leið. Báðir virtu skoðun hins, báðir tala fallega og kjarnyrta íslensku um leið og þeir deildu áns þess að persónugera eða halla máli á nokkurn mann. Jafnvel Sigmar virtist ekki hafa þörf fyrir hefðbundnar þráspurningar og kom betur út sem spyrill. 

Hugsið ykkur hvað umræðan á Alþingi og í þjóðfélaginu í heild væri mikið málefnalegri og skiljanlegri ef Þorsteinn væri formaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnar talaði fyrir VG í stað Guðríðar Lilju og þeirra og Jóhönnu líkar væru í fjölmiðlunum í stað skítkastsliðsins og málfundarstælaranna!

Vandinn væri samt allt þetta fár af fólki í fjölmiðlum sem hefur lítið vald á íslensku, er ekki fært um dýpri umfjöllum um stjórnmál en svo að ætla mætti að stjórnmálin væru fótboltaleikur og er sjálft greinilega í öðru liðinu (á móti ríkisstjórninni).

 


Frábært Jóhanna mín

Það er að verða til nýtt og betra Ísland. Jóhanna og aðrir Samfylkingarþingmenn, þið eigið heiður skilið. Líka allir hinir sem studdu aðilarumsóknina.

Sælubrosið fer ekki af okkur krötunum og Evrópusinnum á næstu dögum. Frábært að skynsemin hafi ráðið á Alþingi í gær og ég fékk margar hamingjuóskir og óskaði sjálf mörgum til hamingju.

Jóhanna og Steingrímur vita sannarlega hvað þau eru að gera og eru frábærlega stefnuföst og traust. Mikill er nú munurinn á kjarki og afköstum hjá þeim eða hjá Geir og Árna. Vona bara að mín elskulega þjóð sjái þetta í meira mæli og láti ekki æra sig á ný.

 


Verður Sjálfstæðisflokkurinn ofan á í þinginu í dag?

Fjölmiðlar, þingmenn og fleiri hafa gert daginn í dag að einhverskonar dómsdegi eða örlagadegi því nú á að greiða atkvæði um það á Alþingi Íslendinga hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu eða hvort einhverskonar þjóðaratkvæði ákveði hvort við sækjum um. Reyndar sé ég í hendi mér að báðar tillögurnar kynnu að falla. Það er samt ekki málið heldur að umfjöllunin er svo þunn og yfirborðsleg að ætla mætti að þessi umsókn sé afgreiðsla á aðild en ekki leið til að vita hvað býðst með aðild.

Að hafna aðildarumsókn er fyrir mér eins og að vilja ekki sjá vöruverð og úrval í stórmarkaði af tryggð við kaupmanninn á horninu. Þora ekki að opna jólapakkann. Fara í útsýnisferð með bundið fyrir augun. Vilja ekki smakka matinn af hræðslu við að hann gæti verið góður. Afþakka kjarabætur af því að þær eru ekki nákvæmlega jafnmiklar fyrir alla.

Að hafna aðildarumsókn núna þegar Íslendingum eru fáar leiðir færar til erlendra samskipta og viðskipta er dæmalaus forstokkun og forræðishyggja. Hvaða lausn eru andstæðingar umsóknar með á gjaldmiðlilsmálum okkar? Eru menn e.t.v. enn að hugsa um norsku krónuna? Dollarann?

Það er ekkert slæmt við að spyrja þjóðina álits á aðildarumsókninni annað en þjóðin er ný búin að kjósa til Alþingis og þeir sem þar sitja eiga að bera ábyrgð á þessari ákvörðum en hluti þeirra vill ekki axla þá ábyrgð (segir e.t.v. eitthvað um af hverju illa er komið fyrir þjóðinni).

Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla hefur samt þann kost að stjórnvöld fá skýrt umboð ef meirihlutinn verður aðildarumsóknar meginn. Það er líka kostur fyrir okkur sem eru aðildarsinnar (ef samningar verða viðunandi) að geta sagt munið þið eftir aðildarumsóknarmálinu, í næsta "stingum höfðinu í sandinn"  kasti sem hinir ráðvilltu þingmenn okkar fá þegar þarf að taka ákvarðanir, ?

Dæmigert fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fyllast allt í einu lýðræðisást þegar svona mál er á ferðinni. Skelfilega er nú flokkurinn hræddur við að taka ákvarðanir og hafa stefnu. Meðal annarra orða, hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í gjaldmiðilsmálum? Veit það nokkur? Er það orðin stefna Sjálfstæðisflokksins að leggja ákvarðanir um minni og/eða stærri pólitísk mál fyrir þjóðina? Hvað með inngönguna í NATO, EES og eignarhald á auðlindum sjávar? Vilja sjálfstæðismenn þjóðaratkvæði um fyrningaleiðina vs núverandi fyrirkomulag á yfirráðum yfir veiðiheimildum? Og hvernig var með lýðræðisástina og stjórnunaraðferðir fyrrum formanns flokksins Davíðs Oddsonar? 

Og nú ætla fulltrúar hins nýja Íslands í Borgarahreyfingunni og róttæklingarnir í VG að hoppa á hina nýtilkomnu lýðræðisást Sjálfstæðisflokksins og standa með þeim í aðildarumsóknarmálinu. Gera þeir sér grein fyrir að þeir eru færa Sjálfstæðisflokknum áhrif og völd með þessu? Þeir eru að sýna sama kjarkleysi og forysta Sjálfstæðisflokksins í því að þora ekki að opna á málefnalega umræðu um hvað aðild að ESB hefði í för með sér? Hvers er að vænta af þessum nýja meirihluta í þinginu? Er eitthvað fleira í spilunum en að hafna aðildarumsókn og Icesave? Halda þessir þingmenn að þeir hafi starfhæfa ríkisstjórn þegar þeir hafa myndað þennan nýja meirihluta?

 

 


Er þetta álit Seðlabankans?

Skrítið mál, mér hefur alltaf skilist að fólk úr Seðlabankanum hefði setið í samninganefndinni og tekið fullan þátt í samningagerðinni. Val ekkert samráð við Seðlabankann?

Hvað heita þessir lögfræðingar og eru þeir t.d. í einhverjum sjórnmálaflokki? Því hefur þetta álit Seðlabankans ekki komið fram fyrr? Hver er skoðun annarra á samningnum t.d. sérfræðinga háskólanna?

Það verður nú aldeilis spennandi að sjá blaðamenn Morgunblaðsins fjalla um þetta mál á málefnalegan og gagnrýninn hátt núna þegar í ljós hefur komið að þeir tala ekki fyrir Seðlabankann?


mbl.is Seðlabanki gagnrýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hættulegt að vita hvað býðst með aðild að ESB?

Smáþjóð sem er í Evrópusambandinu er ekki sjálfstæð! Ef Íslendingar ganga í ESB erum við ekki lengur sjálfstæð þjóð. Evrópusambandið er ólýðræðislegt og tók þátt í að kúga okkur í Icesave! ESB aðild mun rústa landbúnaðinum og erlendir aðilar munu rústa fiskveiðiauðlindum okkar!

Þetta eru kunnuglegar staðhæfingar og skoðanir bæði almennra borgara og stjórnmálamanna sem eru andsnúnir aðildarumsókn um ESB.

Svo eru það við hin sem viljum að sótt verði um. Ég er ein þeirra sem hef lengi talið að það sé mikið hagsmunamál fyrir okkur að komast í ESB. Auðvitað ætlast ég til að samið verði á hagstæðan hátt um sjávarútvegsmál og sanngjarnan hátt varðandi landbúnaðinn. Mér hefur sýnst að fyrir liggi að við stjórnum sjálf nýtingu á staðbundnum fiskistofnum og fáum mjög líklega ívilnanir í landbúnaðarmálum eins og fordæmi er fyrir. Að þessu frágengnu græðum við fullt á aðild t.d. verða felldir niður tollar á margskonar vörum sem þar með lækka í verði. Einnig getum við haft jákvæð áhrif á þróun sambandsins í samvinnu við önnum Norðurlönd. Okkur hefur að mínu mati skort vettvang þar sem við getum beitt okkur og ekki síður höfum við mjög gott af því að bera ábyrgð á framþróum og samþjóðlegum ákvörðunum. Aðgangur að upplýsingum og innsýn í alþjóðaviðskipti og samskipti er enn eitt sem aðild að ESB hjálpar okkur með. Líklega væri ekki svo illa komið fyrir okkur á því sviði ef við hefðum starfað með öðrum þjóðum í ESB og þurft að kunna fótum okkar forráð umfram það sem verið hefur. 

Ég er ekkert hrædd við neitt af því sem ég heyri marga aðra tala um og kemur fram í inngangi mínum af því að ég hef mikla trú á því að við getum lifað góðu lífi og plummað okkur í samfélagi Evrópuþjóða.

Ég hef ekki trú að því að einangrum og heimóttarskapur geri neitt annað en það sem hefur sýnt sig undanfarið fyrir okkur Íslendinga.

Er eitthvað hættulegt við það að heyra fleiri álit en Davíðs og allra hinna sem hafa stjórnað okkur undanfarin ár?

Er verra að útlendingar eigi í íslenskum útgerðum en að útgerðarmenn sem hafa veðsett auðlindina erlendum bönkum?

Er eitthvað hættulegra fyrir okkur að vera í ESB en það er fyrir Finna, Dani, Lichtenstein, Lux og önnur smáríki? Hafa þau misst stjálfstæðið og allt annað sem skiptir máli?

Hver er óvinur okkar, við sjálf og sumir óábygir og sjálfhverfir landar okkar eða aðrar Evrópuþjóðir?

Eigum við ekki fyrst að fá að vita hvað er í boði fyrir okkur með aðild að ESB og síðan að mynda okkur skoðun á því hvað sé best fyrir okkur Íslendinga?

Hvað er svona hættulegt við að vita hvað býðst? 


Fara hin tryggingarfélögin líka á hliðina?

Jæja, þá er Sjóvá að komast undir verndarvæng Steingríms J og Jóhönnu Sig.  Flugleiðir er komið til þeirra í skjól ef ég veit rétt. Hvaða fyrirtæki skyldi verða næst? Ég vona að þau fái sem flestar útgerðir í fangið, það auðveldar fyrningaleiðina og gott væri að ríkið ætti a.m.k. eitt olíufélag því þau skila hagnaði sem má nota til að borga skuldir ríkisins með. En ef Mogginn fer á hliðina ætla ég persónulega að berjast fyrir því að honum verði ekki bjargað fyrir almannafé, það er alveg nóg fyrir íhaldið að skattgreiðendum fjármagni "bláa" ríkissjónvarpið.  

Grínlaust, íhaldið og svokallaðir atvinnurekendur í landinu hljóta að fara á  límingunum núna yfir allri ríkisvæðingunni sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir. Hvernig stendur annars á því að svo mörg fyrirtæki hafa verið svona illa rekin? Kann Þór Sigfússon og feliri slíkir menn ekki til verka? 

Ætli Sjóvá hafi verið eina tryggingarfélagið sem ávaxtaði bótasjóðina áhættusamt og af fáfræði? Skyldu hin tryggingarfélögin líka enda í fangi Steingríms J. og Jóhönnu? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband