16.7.2009 | 10:23
Verður Sjálfstæðisflokkurinn ofan á í þinginu í dag?
Fjölmiðlar, þingmenn og fleiri hafa gert daginn í dag að einhverskonar dómsdegi eða örlagadegi því nú á að greiða atkvæði um það á Alþingi Íslendinga hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu eða hvort einhverskonar þjóðaratkvæði ákveði hvort við sækjum um. Reyndar sé ég í hendi mér að báðar tillögurnar kynnu að falla. Það er samt ekki málið heldur að umfjöllunin er svo þunn og yfirborðsleg að ætla mætti að þessi umsókn sé afgreiðsla á aðild en ekki leið til að vita hvað býðst með aðild.
Að hafna aðildarumsókn er fyrir mér eins og að vilja ekki sjá vöruverð og úrval í stórmarkaði af tryggð við kaupmanninn á horninu. Þora ekki að opna jólapakkann. Fara í útsýnisferð með bundið fyrir augun. Vilja ekki smakka matinn af hræðslu við að hann gæti verið góður. Afþakka kjarabætur af því að þær eru ekki nákvæmlega jafnmiklar fyrir alla.
Að hafna aðildarumsókn núna þegar Íslendingum eru fáar leiðir færar til erlendra samskipta og viðskipta er dæmalaus forstokkun og forræðishyggja. Hvaða lausn eru andstæðingar umsóknar með á gjaldmiðlilsmálum okkar? Eru menn e.t.v. enn að hugsa um norsku krónuna? Dollarann?
Það er ekkert slæmt við að spyrja þjóðina álits á aðildarumsókninni annað en þjóðin er ný búin að kjósa til Alþingis og þeir sem þar sitja eiga að bera ábyrgð á þessari ákvörðum en hluti þeirra vill ekki axla þá ábyrgð (segir e.t.v. eitthvað um af hverju illa er komið fyrir þjóðinni).
Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla hefur samt þann kost að stjórnvöld fá skýrt umboð ef meirihlutinn verður aðildarumsóknar meginn. Það er líka kostur fyrir okkur sem eru aðildarsinnar (ef samningar verða viðunandi) að geta sagt munið þið eftir aðildarumsóknarmálinu, í næsta "stingum höfðinu í sandinn" kasti sem hinir ráðvilltu þingmenn okkar fá þegar þarf að taka ákvarðanir, ?
Dæmigert fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fyllast allt í einu lýðræðisást þegar svona mál er á ferðinni. Skelfilega er nú flokkurinn hræddur við að taka ákvarðanir og hafa stefnu. Meðal annarra orða, hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í gjaldmiðilsmálum? Veit það nokkur? Er það orðin stefna Sjálfstæðisflokksins að leggja ákvarðanir um minni og/eða stærri pólitísk mál fyrir þjóðina? Hvað með inngönguna í NATO, EES og eignarhald á auðlindum sjávar? Vilja sjálfstæðismenn þjóðaratkvæði um fyrningaleiðina vs núverandi fyrirkomulag á yfirráðum yfir veiðiheimildum? Og hvernig var með lýðræðisástina og stjórnunaraðferðir fyrrum formanns flokksins Davíðs Oddsonar?
Og nú ætla fulltrúar hins nýja Íslands í Borgarahreyfingunni og róttæklingarnir í VG að hoppa á hina nýtilkomnu lýðræðisást Sjálfstæðisflokksins og standa með þeim í aðildarumsóknarmálinu. Gera þeir sér grein fyrir að þeir eru færa Sjálfstæðisflokknum áhrif og völd með þessu? Þeir eru að sýna sama kjarkleysi og forysta Sjálfstæðisflokksins í því að þora ekki að opna á málefnalega umræðu um hvað aðild að ESB hefði í för með sér? Hvers er að vænta af þessum nýja meirihluta í þinginu? Er eitthvað fleira í spilunum en að hafna aðildarumsókn og Icesave? Halda þessir þingmenn að þeir hafi starfhæfa ríkisstjórn þegar þeir hafa myndað þennan nýja meirihluta?
Athugasemdir
Hvað róttæklinga í VG???
Ég hef nú ekki orðið var við þá. Ertu að tala um gamla fólkið, gömlu þjóðernissinnana sem fóru í VG þegar þeir fóru á eftir laun. Sumir voru lokkaðir þangað með dýrum bitlingum.
Unnur, ég hef ekki orðið var við róttæklinga innan VG
Kristbjörn Árnason, 16.7.2009 kl. 10:30
Ertu nokkuð að hugsa um ungu stuttbuxnastrákana með stút á munni eða skeifu eins og lítil börn setja upp þegar þau eru alveg að fara að gráta.
Þessa sem góla og gala og eru alveg búnir að gleyma því hvers vegna staða okkar meðal þjóðanna er eins og hún er - --. Og það eru nefnilega alltof margir landar okkar sem muna alls ekki hvað á undan er gengið - þ.e.a.s. sl. ár - nokkuð mörg.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 22:55
Sæl Unnur og velkomin á bloggið mitt. Ég er þér sammála um nauðsyn þess að sækja um og fá valkostina fram. Mér dattur í hug sagan um lifrapylsuna og hann dótturson minn. Yngri dóttir mín leggur mikið upp úr því að strákarnir hennar smakki allann mat svo þeir viri hvernig hann bragðast og er það vel. Henni sjálfri finnst lyfrarpylsa mesta óæti. Hún keypti þó kepp til að sá eldri fengi að prófa, sem hann gerði og þótti gott. Hann snýr sér að móðir sinni og segir. " Ætlar þú ekki að fá þér". Hún neitaði og þá sagði sá stutti. "Sko mamma, bara að prófa einn bita". Hún tekur þá smá ögn og nánast gleypir hana. Pilti finnst það ekki nóg. "Mamma, þú átt að taka góðann bita og tyggja vel svo þú finnir örugglega rétta bragðið".
Ég er reyndar í þeim hópi sem tel næsta víst að okkur sé betur borgið innan ESB, en utan og tel mikilvæg rök hníga í þá átt.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.7.2009 kl. 16:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.