Fjölmiðlarnir hafa ekki batnað

Mig langar að deila hugleiðingum mínum um fjölmiðlana okkar með fleirum.

Síðan hrunið varð í haust hefur orðið sú breyting á Íslandi að fleiri eru gagnrýnir og láta í sér heyra um stjórnmál og þjóðmál almennt og yfirleitt. Gagnrýnin er misjöfn að gæðum og beinist oft að röngum aðilum en engu að síður er fólk í því að láta í sér heyra og ég heyri marga tala um að þetta sé gott og þöggunin og meðvirknin í þjóðfélaginu undanfarin ár hafi reynst hættuleg og megi ekki koma aftur. Ég hygg að flestir hafi tekið eftir þessari breytingu á andrúmsloftinu í þjóðfélaginu.

Fjölmiðlar á Íslandi hafa einnig tekið svolitlum breytingum. Í kjölfar gagnrýni m.a. á fundum sem mótmælendur héldu í vetur, sögðust nokkrir blaðamenn axla ábyrgð á ógagnrýnni afstöðu og umfjöllun m.a. um útrásina og stjórnmálin. Fjölmiðlar hafa verið síðan í haust nokkuð duglegir að upplýsa og fjalla um málefni tengd bankahruninu, spillingu, hagsmunagæslu og fleira og fleira. Engu að síður hefur dottið inn undarlega ógagnrýnin og léleg fréttamennska. Oft komast stjórnmálamenn upp með gagnrýni á aðra án þess að rökstyðja eða upplýsa. Skýringar og tengingar vantar. Mikið er fjallað um sem hneykslismál s.s. að yfirmenn og eigendur bankanna hafi fengið lán án ábyrgða og á annan hátt komist hjá því að borga þau. Þarna eru ákveðnir aðilar nafngreindir og útskýrt í þaula verknaði þeirra. T.d. hefur Ólafur Ólafsson fengið mikla athygli, einnig Guðlaugur Þór og fleiri. Á sama tíma sleppur t.d. varaformaður Sjálfstæðisflokksins ótrúlega vel frá sínum tengslum við Kaupþing. Hvers vegna var svona mikið mál gert úr sönum Boga Nielsen og Valtýs Sigurðssonar en ekki tengdum Björns Bjarnasonar þáverandi dómsmálaráðhetta við Heiðar Má sigurðsson í Kaupþingi?  

Nýlega gaf Magnús Norðdal, gjaldkeri Samfylkingarinnar tæmandi upplýsingar um styrki sem flokkurinn fékk á árinu 2006. Í kjölfarið fjölluðu Mogginn og Ríkisútvarpið um hversu mikið Samfylkingin hafði fengið frá Baugsfyrirtækjum, dregnar voru fram upplýsingar af ýmsu tali úr yfirliti Magnúsar. Fljótlega höfðu fjölmiðlarnir eftir formanni Sjálfstæðisflokksins að FL og Landsbankastyrkir Sjálfstæðisflokksins verði endurgreiddir. Mér virðist sem fjölmiðlar hafi komist þannig frá þessu málefni að flestir halda að eitthvað óeðlilegt sé á seyði hjá Samfylkingunni en á sama tíma er ekki einu sinni útskýrt munurinn á upplýsingum Samfylkingarinnar og hinna flokkanna.

Hvers vegna er ekki fjallað um í fjölmiðlum að hinir flokkarnir hafa ekki birt tæmandi upplýsingar, þ.e. styrki sem bæði stóri flokkurinn og einstök kjördæmisráð fengu? Hvers vegna kemst Bjarni Ben. upp með það að segjast ætla endurgreiða tvo styrki (ætlar víst bara að borga helminginn til baka) án þess að fréttamenn upplýsi okkur nákvæmar um málið? Hvers vegna eru upplýsingum Samfylkingarinnar ekki gerð skil út frá þeirri að þó að td. Sjálfstæðisflokkurinn  hafi ekki gert grein fyrir nema hluta sinna styrkja, eru þeir samt mikið hærri en hinna?

Annað dæmi um ótrúlega lélega fjölmiðlun er hvernig útgerðarmenn (kvótaeigendur) og nokkrir bæjarstjórar í bæjum þar sem er kvóti, komast að með sinn málstað í öllum fjölmiðlum. Fyrningaleiðin er fordæmd og skýringar og tengingar við annað sem máli skiptir eru engar. Ekki er leitað álits hjá öðrum (Þórólfur Matthíasson er undantekning, kom einu sinni í Kastljós) né upplýsingar veittar.

Hvers vegna er ekki talað við bæjarstjóra sveitarfélaga sem hafa tapað kvótanum? Ég er enginn sérfræðingur í málinu, en hér í Sandgerði var 11 þúsund tonna kvóti fyrir nokkrum árum sem var seldur eða fluttur. Hvernig er staðan á Skagaströnd, Keflavík og víðar? Hvaða fyrirtæki eru að leigja öðrum kvótann og fyrir hvað mikið? Hverjir eru stærstu kvótaeigendurnir? Hvernig útskýra útgerðarmenn lagagreinar sem segja að þjóðin eigi þessa auðlind og hún geti ekki verið einkaeign? Margar fleiri spurningar koma upp í huga minn, en hvað eru blaðamenn og fjölmiðlar landsins að hugsa þegar umfjöllun um þessi mál er stýrt af öðrum aðila málsins og lítið annað heyrist?

Fjölmiðlar ráða miklu um það hvernig þjóðfélagi við búum í. Gagnrýnin og um fram allt upplýsandi umfjöllum er grundvallur þess að almenningum geti myndað sér skoðanir og skipt sér af þjóðmálum á uppbyggilegan hátt. Fjölmiðlarnir brugðust á undanförun árum og eru ekki enn farnir að bæta sig í neinum mæli. Ríkissjónvarpið virkar eins og það sé útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Mogginn hefur versnað mikið við nýja eigendur og orðið algert útibú Sjálfstæðisflokksins og hinir miðlarnir eru bragðdaufir og komast litið að enda með fáa góða fétta- og blaðamenn. Helst er að vænta góðrar umfjöllunar hjá Agli Helgasyni og Sjónvarpi Mbl. 

Ef fjölmiðlarnir hafa ekki lært meira og eru ekki tilbúnir til að leggja meira á sig sé ég fyrir mér að illa muni ganga að skapa hér heilbrigðara og betra samfélag en það sem hrundi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband