Icesavebessevisserarar

Mín ástkæra þjóð er auðvitað á móti Icesavesamningunum og þar með ríkisstjórninni ef marka má nýja skoðanakönnun Gallup. Icesavesparnaðurinn er á ábyrgð Landsbankans, útrásarvíkinganna og Björgúlfsfeðga og þeir eiga að borga eða a.m.k. ætti að leggja hald á þær eignir sem þeir eiga enn er skoðun sumra. Gildir þá einu að þetta er ekki hægt á löglegan hátt. Samningurinn er mjög óhagstæður, bæði eru vextirnir háir og afborganirnar líklega óviðráðanlegar. Þá eru ýmsar draugasögur í gangi um hverjir eigi forgang í eignir þrotabúsins. Bretar eru hrokafullir og leiðinlegir og beittu okkur ólöglegum hryðjuverkalögum. Dómstólaleiðina á að fara jafnvel þótt að flestir eða allir sem hafa kunnáttu til að meta hana, segja að hún sé ekki fyrir hendi. Samningamenn (sérstaklega Svavar Gestsson) eru lélegir og hafa ekki vit á því sem þeir eru að gera. Ríkisstjórnin með Steingrím og Jóhönnu í broddi fylkingar hafa ekki vit á fjármálum og efnahagsmálum enda ekki í Sjálfstæðisflokknum né Framsókn sem er grundvallaratriði til að hafa vit á slíku! Og fylgi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eykst!

Enn einusinni ungir menn sem allt þykjast vita

Bessevisserarar landsins hafa verið í essinu sínu undanfarið. Einhvern veginn vill svo til að þeir eru flestir (allir?) ungir karlmenn sem tengjast stjórnarandstöðunni. Þeim er mikið niðri fyrir og málflutningur þeirra virkar þannig á mig að þeir viti að eigin mati meira um þetta en aðrir. Einn bessevissarahópurinn hefur starfað síðan í haust og stóð þá fyrir undirskriftasöfnun og mætti til Bretlands til að afhenda þær. Gott hjá þeim (þó að þeir hafi nú virkað þjóðrembings- og hallærislegir). Hópur fjölmiðlamanna hefur ýtt undir andstöðu við Icesave m.a. með umfjöllun um samninginn og ríkisstjórnina. Þetta gerist einhvernveginn með því að sefja frá sýsli Steingríms og félaga og bæta gjarnan við að andstaðan við samningana sé mest í hans flokki og síðan fá Bjarni Ben. og Sigmundur Davíð að láta ljós sitt skína. A.m.k. gerir Jóhanna Vigdís þetta nær alltaf og Lára Ómars talar gjarnan niður til fólks eins og Steingríms og hans félaga. Sumir bessevissararnir eiga greiðan aðgang að fréttamönnum sem einhverskonar sérfræðingar. Áhrif þeirra sem vanda fréttaflutning og umfjöllun eru því miður lítil enda erum við orðin svo vön því að hlusta á fréttamennina sem eru í tísku. 

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur saman á ný

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru eins og síamstvíburar í afstöðu og umfjöllun um þetta mál. Samningurinn er lélegur, endalaust vantar gögn og þegar gögnin koma breyta þau engu. Félagarnir Bjarni og Sigmundur hafa greiðari aðgang að fjölmiðlum en „vonda“ fólkið sem nú ber ábyrgð á samningnum. Þeir eru líka flínkari að koma frá sér skoðunum en almennir þingmenn stjórnarflokkanna verður að segjast eins og er. Enda auðvelt að brillera þegar fréttamönnum dettur ekki í hug að ræða við þá um ábyrgð þeirra og þeirra flokka á Icesave. Fáir fréttamenn eru að spá í raunverulegri ástæðu fyrir því að Íslendingar verða nú að taka á sig þessar byrgðar. Fréttamenn ásamt framsóknar- og sjálfstæðismönnum fjalla eingöngu um málið á þeim forsendum að Steingrímur og ríkisstjórnin séu að gera vonda og ónauðsynlega samninga, mótmæli séu á Austurvelli eins og í vetur og þessi og hinn sérfræðingurinn segi að þetta sé ófært. Andrúmsloftið að þessu leyti er svo einhliða að það minnir mjög á hvernig var þegar Steingrímur J, Vilhjálmur Bjarna og aðrir álíka gagnrýndu bankamálin árið 2007. Hefur einhver heyrt um þöggun og meðvirkni sem þátt í að fámennur hópur manna komst upp með að setja Ísland á hausinn og kemst upp með að láta almenning borga brúsann?


Fjármálamenn og Sjálfstæðisflokkurinn stjórna fjölmiðlunum

Ég legg til að fréttamennirnir snúi sér að því að skoða almennilega af hverju fór sem fór og hvaða þátt átti fréttaflutningur af þessu tagi í því. Umfjöllun sem er jafn einhliða, grunnfærnisleg og stjórnað af einsleitum hópi sem er greinilega tengdur Sjálfstæðisflokknum var og er okkur hættulegur. Það er hægt að æra og æsa upp fólk og andrúmsloft á þennan hátt og það er einmitt það sem er að gerast núna. Hvernig urðu Icesavereikningarnir til? Hvað sögðu ráðamenn um Icesave? Voru ráðamenn spurðir gagnrýninna spurninga um þá? Hvernig brugðust eftirlitsstofnanir við? Varaði einhver við því að þessi starfsemi væri þjóðinni hættuleg? Hvaða dómstólaleið er fær nú? Hversvegna virkuðu fjölmiðlar ekki þannig að almenningur hefði heiðarlegar upplýsingar og af hverju eru þeir svo mikið gagnrýnni núna en á Sjálfstæðismenn þegar þeir voru við völd? Hvernig farnast þjóðfélagi þar sem nær allir fjölmiðlarnir eru undir hælnum á Sjálfstæðisflokknum og fjármálamönnum sem hafa sýnt sig af öðru eins og hér hefur gerst? Hver þorir að gagnrýna það sem þessir aðilar hafa gert og eru að gera? Verða nöfn Egils Helga og Sigrúnar Davíðs áfram tæmandi upptalning á góðum og almenningsvænum fjölmiðamönnum?


2007 er liðið og kemur aldrei aftur

Mér finnst árið 2007 vera komið aftur í umræðunni um Icesave. Í stað þess að horfast í augu við Icesave, ástæðurnar fyrir þeim og hverjir bera raunverulega ábyrgðina á þeim nauðasamningum sem verið er að gera, er gargað og gólað á Steingrím J. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fá einhverskonar heiður af „andstöðu“ við samninginn þó að þessir flokkar beri langmesta ábyrgð á Icesave, bankahruninu, andrúmsloftinu sem skapað var í kringum útrásarvíkingana og spillingunni sem á sinn þátt í þessu öllu. 

Nú er 2009 ekki 2007 og kæru samlandar, opnið augun og við höfum engan gullkálf til að dansa í kringum. Hann er dauður og næstu árin fara í að gera upp skuldirnar. 

Ástkæra þjóðin mín, ekki lára æra ykkur á ný!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Ekki að ég ætli að afsaka Sjálfstæðisflokk eða Framsókn um þeirra ábyrgð í þessu öllu en hvar var Samfylkingin?  Var hún ekki með stjórn Bankamála á meðan að IceSave í Bretlandi stækkaði fjórfalt?  Var Samfylkingin ekki með Viðskiparáðuneytið, Utanríkisráðuneytið og lykilfólk í Fjármálaeftirliti þegar IceSave opnaði í Hollandi 2008?

Sé ekki betur en að þetta sé enn ein tilraun til sögufölsunar að því leiti að skrifa Samfylkinguna út úr þessum gjörningum...

Róbert Viðar Bjarnason, 2.7.2009 kl. 11:55

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Það má ekki gagnrýna Icesave og það sem stjórnvöld eru að gera í dag vegna þess að Samfylkingin er í stjórn.  Nú verða allir sem styðja Samfylkinguna að spyrna við fótum og láta í sér heyra.  Skrifið bréf og verið sýnileg.  Talið við fólk á mannamótum og teljið upp kosti en ekki galla Iceslave.  Kæru Samfylkingarmenn og konur, ætlum við að láta helv. Framsóknarfólkið og Sjálfstæðimennina valta yfir okkur.  Ég segi nei, berjumst.

Svona gyðingaofsóknir eins og þú stundar eru ekki í lagi!!!!!!  Þú tekur greinilega þátt í pólitískum loddaraleik.  Sama leik og kom okkur í þessa stöðu.  Ertu virkilega stolt af þessu?

Björn Heiðdal, 2.7.2009 kl. 14:58

3 Smámynd: Unnur G Kristjánsdóttir

Ég er reyndar ein af þeim sem gagnrýndu minn eigin flokk Samfylkinguna í bankamálum ári fyrir bankahrun og var viss um að pólitíkin sem rekin var gagnvart þeim málum gæti endað illa. Ég er fjarri því eina manneskjan en við sem reyndum að tala um fyrir stjórnmálamönnum fengum oftast viðbrögð við því eins og þín Björn eru gagnvart því sem ég skrifa. 

En Björn, hverjir bera ábyrgðina á Icesave? Hver ber ábyrgðina á þögguninni sem kom í veg fyrir eðlilega umfjöllum um bankamálin og útrásarvíkingana? Hver ber ábyrgðina á þjóðfélagi sem ekki er fært að horfast í augu við afleiðingar af pólitíkinni sem hefur ráðið á Íslandi undanfarin ár? Eru það Jóhanna, Steingrímur og þeirra flokkar fremur en Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og liðsmenn þeirra sem fylla flokk útrásarvíkinga og valdhafandi hóp í fjölmiðlum? Treystir þú þér ekki til að ræða málið efnislega? 

Unnur G Kristjánsdóttir, 2.7.2009 kl. 16:24

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég treysti mér ekki til að ræða þetta mál með íslenska flokkapólitík hanganda yfir höfðinu.  Auðvitað skiptir máli hver gerði hvað.  Davíð Oddsson er sá sem kom þessu í kring.  Hann naut síðan aðstoðar frá félögum sínum í ríkisstjórn og embættismannakerfinu.  En margir sanntrúaðir Sjálfstæðismenn geta ekki hugsað sér að kenna Dabba um eitt né neitt.  Hann bað jú menn að fara varlega.

Samfylkingarfólk er líka í sömu málum og Sjálfstæðisflokkurinn.  Neitar að viðurkenna þátt sinna forystumanna og kvenna.  Þau voru svo stutt í ríkisstjórninni og vissu kannski ekkert af þessu er viðkvæðið.

Framsóknarflokkurinn er síðan sér kapituli út af fyrir sig eða eiginlega ekki.  Þar vilja menn líka bara skamma hina flokkana og viðurkenna kannski "smá" mistök. Því miður eru allir þessir flokkar bara að vinna fyrir Björgólf, Jón Ásgeir og alla hina milljarðamæringana.   

Björn Heiðdal, 3.7.2009 kl. 15:08

5 Smámynd: Unnur G Kristjánsdóttir

Góðir punktar hjá þér. Þegar ég reyndi að rökræða hvert stefndi að mínu mati og t.d. það sem ég sá af danskri umfjöllum um íslensku bankana og útrásina, við fyrrverandi viðskiptaráðherra sagði hann þessi fleygu orð "Unnur, það er ekki sniðugt að tala bankana niður". Ári síðar  í okt s.l. kom í ljós að mér hafði tekist að tala bankana niður!

Ég reyndar skil ekki fólk sem eru atvinnupólitíkusar sem ekki axlar ábyrgð á því sem það hefur sagt og gert í þessu alvarlegu málum. Hvar í flokki sem þeir eru.  

Unnur G Kristjánsdóttir, 6.7.2009 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband